Áhrif

Árin hlaðast upp hjá öllum,
helst mun þó á Brúnavöllum.
Hvað er núna hjá þeim köllum,
helst til komin of mörg ár?
Aldurinn er ei svo hár!
Ómur berst frá ungum bjöllum,
aldri síðast þjóni.
Þýðan söng ber þeyrinn frá Þorgeiri og Jóni.

Himneskt er að tölta á heiðum,
halda sig frá allra leiðum.
Nema staðar niðri á Skeiðum,
nestið taka og súpa á.
Fagurt verður Fellið þá.
Frjálsir menn á flötum breiðum,
fjörlegur mun Skjóni.
Þýðan söng ber þeyrinn frá Þorgeiri og Jóni.

Helst mun þá að sálin hlýni,
hvassir vindar, líkt sem dvíni.
Lautin eins og gerð úr líni,
lífið allt svo laust við beyg.
Dunar dátt í Gíslateig.
Döggin er sem dreitluð víni,
dásemd er á Fróni.
Þýðan söng ber þeyrinn frá Þorgeiri og Jóni.