Góuþræll

Nú er þorri þrotinn,
þreytist vetur nú,
hýrna vinnuhjú,
húsbóndinn og frú.
Brátt mun ísinn brotinn,
bylgjast lækur tær,
sólin blikar skær,
og skellihlær.
Góan heilsar glöð,
greiðfær munu vöð,
gestir ganga um hlöð,
glaðvær verður stöð.
Siglir skipaflotinn,
sækir fram í ró,
mettar börnin mjó,
með fisk úr sjó.

Hringleit heillasprundin,
hættir öllum þjóst,
gengur ei með gjóst,
geymir sokk við brjóst.
Kætist karlalundin,
kíkir undan brá,
ekkert illt að sjá,
út um skjá.
Stígur fram með fat,
fyllir það af mat.
Yfir gengur at,
að eta á sig gat.
Öll er hringahrundin,
heilluð með sinn mann,
kvæðin sem hún kann,
kæta hann.

Nú er góa að gleðja,
garpa sinna tal,
veisludísaval,
með velgjörðum í mal.
,,Svo mun betra að seðja”
segir góa blítt,
,,vor mun verða hlýtt,
vex allt nýtt.
Skrúðið ykkar stað,
sækið vini í hlað.
Greyin gerið það,
og gæfan sækir að.
Kannske eg fari að kveðja,
kát eg fer á sveim,
aftur ætla heim,
út í geim.”