Matarást

Stúlkukindur sækja á ný,
að sjá og skoða landið.
Taugaenda tekur í,
traust og vinabandið.

Á Vatnaleið vort kvennaval,
vildi standa í ströngu.
Yfir hálfann Hnappadal,
héldu af stað í göngu.

Öll á baki byrði var,
brauð og Amarúla.
Sköflungsbeinið brotnar þar,
við brattann Réttarmúla.

Á bökkum Beilár Margrét lá,
beið þar leið í tjaldi.
Björgunarsveitin börum á
báru í burt með valdi.

Vont mun það að brjóta bein,
og borin niður af fjalli.
En gott er það að geta ein,
gifst mér….góðum kalli.

Þvoði ég hennar þreytta fót,
þerraði hennar vanga.
Lét til haga lauslegt dót,
og línið braut í stranga.

Beinið gréri og gifsi lauk,
gerðist allt sem vildi.
Margrét létt minn vanga strauk,
af móðurlegri mildi.

Hún var alltaf heima þá,
hlúði að mér með köku.
Allt var sælla á að sjá,
í svefni og í vöku.

Mitt yndi var að koma inn,
alltaf kaffi í ráðum.
Æskustund við árbítinn,
hjá okkur hjónum báðum.

En dauft er nú að droppa inn.
og döpur öll mín sinna.
Meirnar lund og hugur minn,
Margrét fór að vinna.

Beygður sit með bollann minn,
bið til guðs, í trúnni,
Að hún komi snöggvast inn,
ég eigi stund með frúnni.

En það sem mér mun veitast best,
og mér aukist kraftur.
Að hún fari í fjöllin efst,
svo fóturinn brotni aftur.