Síðasta þorrablótið,....í kirkjunni.

Hugsandi líta um móa og mela,
mætast með alvit og óvit í hönd.
Húmdökku snjáldrinu, sálina fela,
sindrar í sortanum mannanna önd.
Móhríslan lyftist af lotlegum þúfum,
lætur sem stirni á framandi strönd.
Hér fara höfuð merkt höfðingja húfum,
hófstilling einkennir hraustlega lund.
Skinið úr norðrinu lætur að ljúfum,
lýstur af himni á hrímgaða grund.
Straumniður árinnar skilur á milli,
er sagt er frá fórnum á örlaga stund.
Bakkarnir bera þær sagnir með snilli.
Borinn er grandvarinn beyglaus á hnall.
Haldi sig heima, hver sá hinn illi.
Heyra má gjörninga óma við skjall.
Flóamenn berast að fljótinu eina,
forystumennirnir vísa á stall.
Strætisker lýsir á brautina beina,
best er að forðast slíkt flæðandi ljós.
Frelsa skal húmið og forða, án meina.
Í frostinu dafnar hin fegursta rós.
Vegleið í grjótinu virðist hér tala,
og veturinn sjálfur gefur því hrós.
Dimman sú dökka um engi og bala,
dúnmjúk sem ungmeyjar læri við ver.
Hún er með aflið sem kraftinn mun ala.
Enginn mun víkja frá morinu hér,
án þess að snerta þann styrk sem hún geymir.
Svegðir er kominn að gá hvað hann sér,
finnur hann gjörla hvar frækilegt streymir,
frómfúsa lundin með Ásadrykk,
fullhugans djörfung, sem alla oss dreymir.
Djúp eru mótin og steypan er þykk.
Gellur í köllum og glymur um velli.
Gátin er fjötruð, en hras ei með hnykk,
geðið er gjöfult en vini ei hrelli.
Með Grímni í dansi er fasið dátt,
og dunar þá lífið af ungri elli.